Newsflash

Spurningar og svör um Stuðla Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

 

1. Hvar eru Stuðlar?

Stuðlar eru í Fossaleyni 17, Grafarvogi í Reykjavík


2. Fyrir hverja eru Stuðlar?

Stuðlar eru greiningar- og meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum 12- 18 ára sem glíma meðal annars við hegðunarörðugleika og vímuefnavanda. Að baki vanda unglinga sem koma til meðferðar á Stuðla geta legið margþættar ástæður, svo sem erfiðleikar í þroska, langvinnir erfiðleikar í skóla, áföll, misnotkun vímuefna eða geðraskanir eins og þunglyndi og kvíði. 

 

3. Hvað er gert á Stuðlum?

Á Stuðlum eru tvær aðskildar einingar sem skiptast í Meðferðardeild og Neyðarvistun.


Lokuð deild (Neyðarvistun)

Unglingar eru vistaðir á neyðarvistun í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota, vímuefnaneyslu eða alvarlegra hegðunarerfiðleika.  Það eru barnverndarnefndir og lögregla (í samráði við barnaverndarnefnd) sem geta vistað ungling á lokaðri deild. Unglingar eru vistaðir á neyðarvistun í eins skamman tíma og unnt er og aldrei lengur en 14 daga.  Á meðan unglingurinn dvelur á neyðarvistun vinna starfsmenn barnaverndarnefnda að úrlausn mála. Neyðarvistun er kynjaskipt.


Meðferðardeild
Á meðferðardeild Stuðla fer fram greining á stöðu og vanda unglings samhliða skipulögðu meðferðarstarfi auk eftirmeðferðar. 
Það eru rými fyrir 6 unglinga í senn.  Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá, fræðslu og atferlismótandi þrepa-og hlunnindakerfi. Að öðru leiti er meðferðin löguð að þörfum hvers og eins þar sem unnið er markvisst með einstaklingsbundin markmið. Greining og meðferð haldast í hendur í einstaklings-og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga. Unnið er með aðferðir unglings í samskiptum, líðan og viðhorf til eigin stöðu og bjargráð í fjölskyldu. Einnig er markviss þjálfun í félagsfærni, sjálfsstjórn og hæfni til að nýta og auka styrkleika (ART-þjálfun). Daglega er farið í útivistir, tómstundir og íþróttir.


Mikil áhersla er lögð á samvinnu við foreldra og taka foreldrar virkan þátt í meðferðinni. Foreldrar koma í reglubundin viðtöl auk þess sem boðið er upp á Fjölskyldu -ART. Á Stuðlum starfar listmeðferðarfræðingur sem býður unglingum upp á listmeðferð.


Þegar unglingur útskrifast af meðferðardeildinni tekur við eftirmeðferð. Gert er ráð fyrir að eftirfylgdin geti varað allt að sex mánuðum og standi til boða þótt foreldrar þiggi ekki viðtöl hjá sálfræðingi. Starfsmenn Stuðla hafa eftirlit með vímuefnaneyslu unglinga og þeim hjálpað að halda sig við heimferðaráætlanir. Lögð er áhersla á samvinnu við skóla,vinnustaði (IPS-aðferð) og almennan stuðning við unglingana. Stuðlar koma að sáttaumleitunum ásamt lögreglu með skjólstæðingum þar sem það stendur til boða.


4. Hvað eru unglingarnir lengi á Stuðlum?
Meðaltími vistunar á meðferðardeild Stuðla eru 8-12 vikur. Í sumum tilvikum getur vistunartíminn verið styttri eða lengri.5. Er meðferðin á Stuðlum algerlega lokuð?
Unglingarnir sem kom í greiningu og meðferð á meðferðardeild fara í daglegar útivistir. Eftir tiltekinn tíma og framgang í meðferð eru heimfararleyfi sem eru mikilvægur þáttur í meðferðarstarfinu.  Heimfaraleyfi geta verið dagleyfi, kvöldleyfi, sunnudagsleyfi og helgarleyfi allt eftir stöðu hvers og eins. 6. Skóli á Stuðlum.
Það eru kennarar frá Brúarskóla sem sjá um kennslu. Kennsla fer fram í kennslustofum á Stuðlum, fimm daga vikunnar í ca. 3 kennslustundir á dag. Sumir nemendur sem koma á Stuðla eru í andstöðu við skóla og hafa ekki stundað skóla í einhvern tíma.Ýmsar ástæður geta legið að baki eins og námserfiðleikar, vanlíðan, einelti eða aðrir erfiðleikar í samskiptum. Grunnkrafa skólans á Stuðlum er að mæta á réttum tíma, æfa sig í jákvæðum samskiptum, fara eftir reglum og taka leiðsögn kennara. Unnið er með bóklegar greinar, tónlist og tónlistarsköpun. Verkefnin taka mið af þessu og farnar eru ýmsar leiðir sem einskorðast ekki endilega við námsbækur. Nemendur fá list og verkgreinakennslu að lágmarki einu sinni í viku í Brúarskóla. Foreldrar geta haft samband við kennara á símatíma sem er á fimmtudögum frá kl.8.30-9.00 í síma 5308800. Kristján Sigurðsson er kennari á Stuðlum.7. Hvernig er aðstaðan fyrir unglingana á Stuðlum?
Unglingurinn fær sér herbergi með baðherbergi. Hópavinna, fundir og samvera fara fram í miðrými og einnig búum við svo vel að hafa listasmiðju og tónlistarherbergi þar sem unglingarnir geta æft sig á hljóðfæri. Einnig höfum við íþróttasal þar sem m.a. er hægt að fara í borðtennis, spila fótboltaspil, stunda lyftingar og líkamsrækt eða skjóta á körfu. Það er kokkur á Stuðlum sem eldar fyrir unglingana og starfsfólkið og lögð er áhersla á reglulegar og heilbrigðar máltíðir.


 


 

 
Meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga. Fossaleyni 17, 112 Reykjavík. Sími: 530 8800 – Bréfsími: 530 8801
Höfundarréttur © 2012 Stuðlar. Öll réttindi áskilin.